Ég er ennþá að vinna í því að setja inn myndirnar, þegar allt er komið þá spái ég í útlitinu.

Ferskt Gras og Villtar Plöntur

Naggrísir eru grasætur. Þeir borða auðvitað grænmeti og þurrmat, en grasið er aðal undirstaðan í mataræðinu þeirra og ætti þess vegna alltaf að vera aðgengilegt eins og vatn. Meltingin á þeim þarf á mjög miklum trefjum að halda til að ganga rétt, og grasið gefur þeim mjög mikið af þessum trefjum

Sumarið og grasið

Sumrið er besti tími ársins ef þú átt grasætu sem gæludýr, tilvalið tímabil til að spara á því að kaupa endalaust þurrkað hey og bara týna það út í garði frítt. Þegar veðrið er gott og hlýtt þá er einnig hægt að þurrka gras í garðinum eða út á svölum sem nýtist þér eftir að grasið hættir að vaxa. Þegar þú ert að gefa naggrísunum þínum ferskt gras, þá skaltu bara safna saman nóg í einu til að fylla heygrindina þína, nýtt ferskt gras daglega. Að geyma ferskt gras er ekki sniðugt vegna þess hversu fljótt það er að skemmast, þú ættir að þurrka það svo það endist.

ATH: Þegar verið er að skipta yfir í ferkst gras í stað heys, þá er best að gera það hægt og gefa þeim lítið af því til að byrja með. Þetta kemur í veg fyrir mögulegar meltingartruflanir vegna snöggra breytinga í mataræði.

Söfnun og þurrkun

Best er að nota skæri, hníf eða ljá/orf til að slá grasið í höndunum af því að naggrísum líkar betur við langt gras. Sláttuvélar tæta grasið í smáar agnir sem gerir það allt rennblautt af gras-safa, sem hentar hvorki til að gefa naggrísunum né til að þurrka.

 • Ekki safna grasi á eftirfarandi stöðum: nálægt umferðargötum eða á stöðum sem hundar pissa.
 • Grasið skal vera vel grænt á litinn, gult gras er dautt gras og næringarlaust.
 • Forðist að safna stráum, þau eru næringarlítil og verða sérstaklega áhættusöm þegar þurrkuð (geta stungist í og slasað naggrísinn).
  Strá eru í raun blómin hjá grasinu og vaxa þess vegna helst á seinni hluta tímabilsins.
 • Kynntu þér hvaða viltar plöntur eru óhætt að gefa naggrísum áður en þú ferð að bæta þeim í mataræðið
 • Ekki safna meira af grasi en passar í heygrindina þeirra daglega, nema þú ætlar að þurrka það og búa til hey

Gætir jafnvel hugsað það þannig að ef þetta væri salat sem þú gætir borðað sjálf, þú myndir ekki vilja borða það ef það væri mengað og ættir þess vegna að forðast að bjóða naggrísnum þínum upp á mengað gras.

Undanfarin sumur hef ég safnað saman eins miklu grasi og ég hafði pláss fyrir í tunnur (sem upprunalega voru fyrir hundamat) og dreift því á svalirnar hjá mér á sólríkum dögum til að þurrka það til að búa til glæsilegt hey sem naggrísirnir mínir geta fengið þegar ég get ekki lengur safnað fersku grasi úr garðinum eftir sumarið. Næ að fylla svartan ruslapoka af grænu þurru hágæða heyi sem gerir mann stoltan fyrir að hafa búið til sjálf. Helsta málið við að þurrka gras væri að snúa því reglulega svo allur rakinn þorni upp í sólinni, jafnvel hafa þetta ofan á einhverri grind frekar en beint á jörðinni svo það lofti um og þorni hraðar. Það má enginn raki vera í heyinu þegar þú setur það í plastpoka vegna hættu á því að það mygli.

 • Þú ættir að safna grasinu eins snemma og mögulegt er, til þess að nýta sólina sem best til að þurrka grasið yfir daginn þegar veður er gott.
 • Best er að nota grindur eða strekt net til þess að lyfta grasinu af jörðinni þegar verið er að þurrka, það loftar betur um og flýtir fyrir ferlinu
 • Gætir búið til einskonar þurrku-hillur til að nýta plássið betur, svo grasið/heyið sé ekki að taka yfir allt svæðið
 • Heyið mun fara út um allt, sérstaklega þegar það er vindur úti. Þú vilt þess vegna hafa hrífu eða sóp við höndina.
 • Þegar grasið efst hefur þornað, þá viltu snúa því öllu á hvolf svo grænna grasið snúi upp. Gerðu þetta reglulega.
 • Það tekur venjulega tvo sólríka daga til að þurrka hey almennilega, en auðvitað þarftu sjálf að meta stöðuna á því.
 • Græni liturinn dofnar því lengur sem heyið liggur í sólinni, ættir þess vegna ekki að skilja það eftir óþarflega lengi í sólinni þegar það er orðið þurrt í gegn. Grænna hey er girnilegra og næringarríkara. Gulur er ógirnilegasti liturinn á grasi sem er í boði.
 • Hey sem þú ert alveg örugg um að sé þurrkað í gegn er hægt að setja í stóran svartan poka. Ennþá betra væri að hafa stóran tau-poka sem loftar þá um heyjið og kemur í veg fyrir mögulegan raka (gætir t.d. saumað saman gamalt lak til að vera poki) og geymt það á þurrum stað

Rækta ferkst gras (hveitigras)

Þú getur líka ræktað ferskt gras heima hjá þér, alveg óháð hvaða árstíð er úti. Þú hefur kanski heyrt um „kattargras“ en fundist það óþarflega dýrt til að kaupa reglulega, en málið er að þetta er ekki nein ákveðin tegund sem heitir kattargras og er hægt að finna ódýrari kosti til að rækta. Venjulega er kattargras-fræ bara bland í poka af mismunandi grasfræjum, þar á meðal hveitikorn. Hægt er að kaupa poka af hveitikornum í t.d. Heilsuhúsinu sem hægt er að rækta í fullvaxið gras á rúmri viki, og jafnvel klippt það oftar en einu sinni áður en það hættir að vaxa.

Þú getur auðveldlega fundið fullt af leiðbeiningum á netinu ef þú leitar að „how to grow wheatgrass“. Notkun á hveitigrasi er nefnilega orðið mjög vinsælt hjá fólki sem hugsar mikið um mataræðið og heilsuna, að nota sérstakar safapressur til að búa til Hveitigras-safa, og það er margfalt ódýrara og furðu einfalt að rækta það sjálf. Á einsku kallast hveitikorn „wheat berries“.

Það er ekkert mál að búa til heimagerða fræ-krukku til að láta fræin spíra í. Getur notað glerkrukku, sett tusku eða annað gróft efni yfir opið á krukkunni og fest það með lokinu (sem þú værir þá búin að skera gat í) eða með teygju.

Skrefin til að rækta gras eru afar einföld: leggja í bleyti, láta spýra, sá í mold og uppskera, allt tekur þetta í kringum 9 daga. Hér fyrir neðan eru aukalegar útskýringar sem gætu hjálpað þér, en auðvitað eru margar mismunandi aðferðir til ræktunar. Það er einfaldara fyrir marga að horfa á vídeó sem útskýrir hlutina frekar en að lesa, og ekki gleyma að það þarf ekki alltaf að fylgja leiðbeiningum 100%.

 1. Fyrst þarftu auðvitað fræin/kornin. Hægt er að nota hvaða korntegund sem er, en hveitikorn eru algengust og auðveld í ræktun. Þú vilt helst lífræn korn sem hafa ekki verið meðhöndluð, alls ekki ristuð. Ég hef t.d. fundið 500gr poka til sölu í Heilsuhúsinu.
 2. Finndu þér bakka sem þú vilt rækta grasið í. Til að vita hversu mikið af korni þú þarft að nota, þá skaltu hylja botninn á bakkanum með kornum svo sjáist varla í hann (þunnt einfalt lag)
 3. Skammtaðu þér kornið og skolaðu þau (til að fjarlægja allt kusk og ryk) og legðu þau síðan í bleyti í 8-12klst (eða yfir nóttu)
 4. Næst skaltu skola kornið og hella vatninu úr (ekki svo harkalega að þau brotni, en skalt ekki þurrka þau). Ef þú ert að nota fræ-krukku með sigti í lokinu, þá getur þú einfaldlega skolað kornið og sett krukkuna til hliðar á hvolfi svo vatnið rennur úr því. Annars getur þú haft það í sigti yfir skál og sett lok yfir (eða blauta tusku/viskustykki)
 5. Þegar meirihlutinn er farinn að spýra (yfirleitt innan sólarhrings) þá er kominn tími til að setja fræin í mold. Því meiri mold sem þú hefur í bakkanum, því sjaldnar þarftu að vökva (moldin er vökva-geymslan). Dreifðu úr fræjunum yfir moldina og vökvaðu vel.
  • Þú getur jafnvel ræktað gras án þess að nota neina mold ef þú hefur réttu aðstöðuna, það kallast „hydroponics“ og notar bara vatn og kanski steinefni blandað út í. En ég ætla ekki að útskýra það hérna, ættir að kynna þér það sjálf. En það verður auðvitað meiri næring í grasinu ef þú notar góða mold.
 6. Þú skalt síðan hylja bakkan (t.d. með spjaldi, rakri tusku/viskustykki eða einfaldlega hylja fræin með mold) svo það sé dimmt, þar til grasið byrjar að vaxa. Ekki leyfa moldinni að þorna, einfaldlega setja vatn í undir-bakkann og leyfa moldinni að soga það upp.
 7. Þegar grasið er byrjað að vaxa af einhverju magni, þá er kominn tími til að gefa því sólarljós, þarf ekki að vera beint í glugganum (sem er í raun verra á köldum dögum, grasið vex hægar þeim megin sem er kaldara). Vökvið eftir þörfum með því að setja vatn í undir-bakkan. Ástæðan er sú að því fræin mygla auðveldlega í miklum raka (jafnvel eftir að þau spýra). Myglan er ekki hættuleg þarna í bakkanum, en ekkert girnileg heldur, þess vegna viltu ekki vera ýta undir aukinn vöxt myglunnar.
 8. Þegar grasið er orðið nógu hátt eftir nokkra daga, þá er tími til að uppskera það eða leyfa naggrísunum einfaldlega borða það beint úr bakkanum. Þú getur síðan sett bakkan aftur í birtuna og leyft grasinu að vaxa aftur. Það er nefnilega hægt að uppskera það oftar en einu sinni, en það vex miklu hægar því oftar sem það er skorið (og síðan verður myglan örugglega orðin óþæginlega mikil í bakkanum eftir svo langan tíma). Sjálf læt ég bakkan ekki í búrið hjá naggrísunum ef myglan er mikil, frekar bara skera grasið sjálf og gefa þeim.
 9. Endilega skoðið þessar myndrænar leiðbeiningar (á ensku):

Ég hef heyrt nefnt að þú getur notað einfalda blöndu af borðedik og vatni til að hægja á vexti myglu þegar mikill raki er, bara úða því yfir fræin.

Vissir þú að lambhagar selja bakka af fersku hveitigrasi, tilbúið til notkunar? Sniðugt er að nýta sér hveitigras þegar þú þarft að handmata naggrís, gras-safann og maukið. Síðan hafa naggrísir oft meiri áhuga á fersku grasi en öðrum mat.


Villtar Jurtir

Það eru margar aðrar plöntur út á túni en bara eintómt gras. Sumar plöntur eru eitraðar eða innihalda efni sem eru slæm fyrir naggrísi, þess vegna skaltu helst ekki gefa þeim neitt nema þú veist að það sé öruggt.

Ekki gefa naggrísum plöntur sem þú ert ekki viss um! Ef ég hef ekki skrifað neitt um plöntuna þá hef ég ekki getað athugað hana nánar, endilega kynnið ykkur málin sjálf.

Góðar plöntur

Það er alltaf best að gefa naggrísunum þessar plöntur í hófi, en þið þurfið sjálf að meta hvaða jurtir er góðar fyrir naggrísina þína. Eftirfarandi plöntur eru ætar og óhætt fyrir naggrísina þína samkvæmt ýmsum upplýsingum.

 • Haugarfi, Chickweed (Stellaria media), rosalega gott og næringarríkt.
 • Vallhumall, Yarrow (Achillea millefolium)
 • Hvítsmári, White clover (Trifolium repens). Best er að tína þær áður en þær bera blóm. Smárar innihalda einnig kalk. Gefa hóflega af þessari plöntu, hún getur valdið gasi.
 • Túnfífill, Dandelion (Taraxacum officinale), bæði blöð og blóm eru ætileg. Þeir innihalda mikið C-vítamín og kalk, og Oxalsýra eykst eins og plantan þroskast (þess vegna eru ungar plöntur bestar). Gefa hóflega vegna hægðarlosandi eiginleika og kalks.
 • Græðisúra, Broadleaf Plantain (Plantago major), best að tína þegar plantan er ung vegna þess að hún verður bitur og trefjameiri með tímanum
 • Kattartunga, Sea Plantain (Plantago maritima)
 • Brenninetla/Stórnetla, Stinging nettle (Urtica dioica), EKKI GEFA FERSKT vegna þess að hárin/nálarnar stinga. Það er mögulegt að borða laufblöðin ef þau fá að linast á dimmum stað (þegar þær hafa verið uppskornar og eru að þorna, þá linast nálarnar og stinga ekki lengur).
 • Garðamaríustakkur, Lady's Mantle (Alchemilla mollis)

Hættulegar plöntur

Þessar plöntur eru ekki góðar handa naggrísum af ýmsum ástæðum.

 • Sóleyjar
  • Brennisóley, Buttercup (Ranunculus acris), flestar grasætur forðast Brennisóleyjar vegna þess að þær brenna í munni. Brennibragðið og sviðinn kemur af efnum sem tilheyra flokki glúkósínólata. Slík efni geta valdið ertingu og bólgum á húð, magakveisu og niðurgangi.
  • Hófsóley, Marsh Marigold/Kingcup (Caltha palustri)
 • Næturfjóla/Kvöldstjarna
 • Smánetla, Burning nettle (Urtica urens), nálarnar á þeim innihalda eiturefni sem valda kláða
 • Alaskalúpína, Lupin (Lupinus nootkatensis), myndar eiturefni sem geta valdið lömun og mögulegulega erfðagöllum í afkvæmum.
 • Krossfífill, Groundsel (Senecio vulgaris), hefur hægðarlosandi áhrif og getur valdið alvarlegum lifrarskemmdum (sem hafa dregið búfé til dauða). Eiturefnin eru enn til staðar eftir þurrkun.
 • Hóffífill, Coltsfoot (Tussilago farfara), blómin á þeim geta valdið lifrarskemmdum í t.d. rottum
 • Sýkigras, Scottish asphodel (Tofieldia pusilla), veldur sviða og doða í munn og mikilli ertingu.
 • Súruætt, þessar plöntur innihalda rosalega mikið af oxalsýru og getur haft slæm áhrif á nýrun.
  • Hundasúrur, Sheep Sorrel (Rumex acetosella)
  • Njóli (Rumex longifolius)
  • Túnsúra (Rumex acetosa)
  • Rabbabari/Tröllasúra, Rhubarb (Rheum rhabarbarum), einstaklega hátt magn oxalsýru og laufblöðin eru eitruð
 • Tröllahvönn (Heracleum)
ATH: allar plöntur sem vaxa úr lauk-hnúðum eru eitrað fyrir naggrísi (t.d. túlípanar), og flest allar skraut plöntur.

Heimildir: Cali Cavy Collective: How to grow wheatgrass - How to grow WheatGrass (videó) - Eitraðar plöntur - Flóra Íslands - Common forages

Prenta/export
QR Kóði
QR Code gras (generated for current page)